Klósettrúllukenningin
Ég hef mikinn áhuga á hegðun manna. Ég get dundað mér við það tímunum saman að velta því fyrir mér af hverju þessi gerir svona en hinn hinsegin, af hverju sumir halda fast í eina skoðun meðan aðrir halda í aðra skoðun. Þar sem ég er á þriðja árinu mínu í Kennaraháskóla Íslands hef ég fengið þvílíkt tækifæri til að skoða hegðun fólks, þar hef ég einnig fengið að kynnast hinum ýmsu kennismiðum, frömuðum og hugmyndahönnuðum sem mér er ætlað að spegla mig í svo ég geti nú verið með annað hvort þessa skoðun eða hina. Á tímabili var ég að sligast undan pressunni að vita svona mikið um allt þetta merkisfólk sem setti fram sínar kenningar meðan aðrir settu fram einhverjar allt aðrar hugmyndir. Hvernig átti ég, óbreyttur borgarinn, að finna leið til þess að gera upp við mig hvort ég vildi annað hvort þetta eða hitt. Ekki nóg með það heldur er líka til þess ætlast að þegar ég loksins hef stigið skrefið til hægri... eða vinstri... þá þarf ég að sjálfsögðu að geta rökstutt af hverju ég tók einmitt það skref en ekki hitt. Fyrir náttúrulegan skilgreinanda eins og mig, þ.e. að hafa þörf fyrir að skilgreina alla skapaða hluti, var þetta að verða einum of mikið.Svo vildi það til að ég sat á klósettinu einn daginn og klósettpappírsrúllan snéri öfugt, það er að segja, klósettpappírsblaðið snéri aftur svo ég, án umhugsunar, snéri því við svo rúllan snéri fram. Þvílíkur léttir, nú var allt á hreinu.Meðan ég svo þvoði hendurnar og þurrkaði fór ég að velta því fyrir mér af hverju ég hefði gert þetta og svarinu laust í nauðbeygðan huga minn til að taka við greiningunni. Fólk er ekki eins flókið og ég hélt. Það skiptist einfaldlega í þá sem snúa klósettpappírnum fram og þá sem snúa honum aftur.Út frá þessari kenningu fór ég að tala við fólk og skilgreina það í annan hvorn flokkinn og viti menn, fólki stendur alls ekki á sama hvernig klósettpappírsrúllan snýr.Því allt verður jú að vera annað hvort eða. Ég hef komist að þeirri óvísindalegu niðurstöðu að fólk í þeim flokki sem snýr klósettpappírsrúllunni fram er það sem ég kalla rúðustrikað fólk. Það er fólk sem kaupir fiskbollur í dós og lætur merkimiðann snúa fram, fólk sem þolir ekki annað fólk sem kemur of seint, fólk sem veit hvar hlutirnir eiga að vera (og verða pirraðir ef þeir eru færðir úr stað án þeirra vitundar). Þetta er fólk sem safnar peningum en segir engum frá því, fólk sem nýtir notuð föt eða með öðrum orðum fólk sem er passasamt á peninga og er oft á tíðum nískt. Þetta er fólk sem telur sig alltaf hafa rétt fyrir sér og vill að aðrir hlusti á það, einmitt vegna þess að það hefur alltaf rétt fyrir sér. Framklósettpappírsfólk eru þannig foreldrar að þeir minna börnin sín reglulega á að svona hafi þetta nú ekki verið í sína tíð og eiga stundum bágt með sig þegar aðrir fá hlutina áreynslulaust upp í hendurnar (af því þeir hafa alltaf þurft að vinna fyrir sínu). Ennfremur er fólk í þessum flokki traust, heimakært og iðjusamt.
Fólkið í hinum flokknum, það er að segja afturklósettpappírsfólk, það er hinsvegar alveg sama hvernig dósin snýr í skápnum, fiskbollur í dós er bara fiskbollur í dós. Þetta fólk kemur oft seint og skilur ekki hvaða máli það skiptir að vera akkúrat á tíma, tíminn er hvort eð er afstætt hugtak. Þetta fólk segist ekki ætla að vera einhversstaðar klukkan átta, það segist ætla að vera einhversstaðar um átta leitið. Þetta fólk gengur ekki að hlutunum vísum, en veit að það lagði þá hérna einhversstaðar. Þetta fólk telur ekki peningana sína og er þar af leiðandi gjafmilt en oft á tíðum blankt. Þetta er fólkið sem hlustar á hitt fólkið (í hinum flokknum), og þarf ekki endilega að koma sínu sjónarmiði á framfæri en þegar það gerir það þá eru það yfirleitt annað hvort mjög marktækir punktar eða mjög fyndnir. Foreldrar í afturklósettpappírsflokknum eru ágætis foreldrar, nokkuð kærulausir en hafa þó einhverjar reglur. Vinir barnanna þeirra sitja við eldhúsborðið hjá þeim og spjalla, af því þeir hlusta. Að lokum er þetta fólk vinamargt, fínir hlustendur og brosmildir. Hvernig væri lífið án þessara andstæðna? annar vill tómat en hinn túmat...en báðir eru þó að borða sama ávöxtinn...eða er þetta kannski grænmeti?
(skrifað árið 2004)Flokkur: Dægurmál | 15.1.2008 | 17:46 (breytt kl. 17:51) | Facebook
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.